Hvað er opinn efniviður?

Valhnetaoktóber 5, 2019

Opinn efniviður er efni eða hlutur sem hefur ekki fyrirfram ákveðið hlutverk eða útkomu. Sem dæmi má nefna púsluspil sem eingöngu er hægt að púsla á einn veg. Það er hægt að nota opin efnivið á fjölbreyttan hátt og engin útkoma er sú eina rétta. Efniviðurinn sem börnin hafa í höndunum er hvetjandi, ýtir undir sköpunargáfu, ímyndunarafl og tjáningu þannig að hugmyndir barnanna njóta sín. Markmiðið með opnum efnivið er að öll börn fái að njóta sín á eigin forsendum, ekki er keppst um að ná loka útkomu á ákveðnum hraða, æfa skapandi og gagnrýna hugsun, efla samskipti og samvinnu.


Mikilvægt er að endurmeta og þróa leikefni reglulega. Leikefni þarf að vera hvetjandi og höfða til mismunandi skynjunar og örva börnin til rannsókna og kannana. Mikilvægt er að börn geti notað leikefni á fjölbreyttan hátt og byggt á reynslu sinni. Rými og efniviður þarf að vekja forvitni barna og ýta undir ímyndunarafl þeirra, sköpunarkraft og tjáningu þannig að hugmyndir þeirra njóti sín. Börn njóta sín þegar þau leika sér með opinn efnivið vegna allra þeirra möguleika sem hann hefur upp á að bjóða. Skapandi og sjálfsprottin tjáning barna með opinn efnivið eykur þeirra vellíðan. Með opnum efnivið dýpka börnin skilning sinn í gegnum upplifun við meðhöndlun á ólíkum efnivið. Leikefnið getur verið náttúrulegt eða framleitt. Með notkun opins efniviðar er ýtt undir ímyndun, sköpun og lausnamiðaða færni. Með notkun á opnum efnivið fær barnið frelsi til þess að velja og skapa en talið er að þá eflist sjálfstraust þeirra.

Fyrri frétt

Afhending

Næsta frétt

Leikfangabílar